18.3.2008 | 15:28
Skárra að vera púkó
Jæja, nú hefur gengi íslensku krónunnar sunkað niður síðustu mánuði og náð sögulegri lægð. Fréttatímarnir hafa því verið uppfullir af barlómi og hræðilegum fréttum af hækkandi lánum og hækkandi eldsneytisverði. Samkvæmt sumum ku besta lausnin á vandamálinu sú að ríkið hlaupi undir bagga með almenningi og bjargi honum sem snöggvast frá hyldýpi skuldanna. Þetta er nú meiri vitleysan. Fólk verður bara að taka afleiðingum gjörða sinna í þessum málum sem öðrum.
Auðvitað er leiðinlegt að fólk fari á hausinn og ég óska engum þess en hinsvegar mátti alveg sjá í hvað stefndi og það er kominn tími til að Íslendingar láti sér að kenningu verða þegar kemur að botnlausri neyslu. Þarf fólk virkilega að kaupa nýjan bíl á þriggja mánaða fresti, vélsleða, mótorhjól, 50" flatskjá, nýja eldhúsinnréttingu á hverju ári og tvær utanlandsferðir á ári?? Ég er viss um að þeir eru fáir í fjárhagslegum vandræðum nú sem sniðu sér stakk eftir vexti í peningamálum sínum en fylgdust með öðrum eyða um efni fram.
Hvað hátt eldsneytisverð varðar er til einföld lausn fyrir þá sem ekki eiga fyrir bensíndropanum: Að keyra minna!
Ég minnist þess nú þegar ég ræddi erlendu lánin við mann einn mér nákominn í október sl. Honum fannst það sjálfsagt mál að taka lán í erlendri mynt þó svo að hann hefði laun í íslenskum krónum. Félagi hans hafði nefnilega reiknað út að gengi krónunnar þyrfti að lækka um 20% til að það væri hagkvæmara að taka lán í íslenskum krónum með íslenskum vöxtum. Síðan þá hefur krónan lækkað um 30% miðað við evru.
Ja, mikið óskaplega er ég feginn að ég sleppti því að kaupa nýjan bíl, vélsleða, mótorhjól, eldhúsinnréttingu og utanlandsferð, allt á lánum, eins og allir hinir gerðu. Það er jú skárra að vera púkó en á hausnum!
Gríðarlegt flökt á krónunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta eru orð í tíma töluð. Það væri eflaust betur komið fyrir mörgum heimilum ef fólk hefði ekki skellt skollaeyrum við aðvörunarorðum þeirra sem bentu á að góðærið væri ekki eilíft og það kæmi að skuldadögum fyrr en seinna. Því miður þá voru það of margir sem létur gamminn geysa í óþarfaeyðslu og hlustuðu ekki á þetta "gamaldagsrugl" og því er staða margra heimila eins og raun ber vitni. Vonandi læra sem flestir af þessari lægð sem nú er og fara hægar í næstu uppsveiflu þegar hún kemur. Kveðja Ingvar.
Ingvar (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.